Að loknu námskeiði um rafræna ráðgjöf

Mánudaginn 24. september var um þriðjungur félagsmanna okkar mættur á námskeið um rafræna ráðgjöf, möguleika og markmið. Sérfræðisetur um ævilanga náms- og starfsráðgjöf bauð til námskeiðsins með styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Vinnumálastofnun,  Iðunni Fræðslusetri,  Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar og  Félagi náms- og starfsráðgjafa. Þar höfðu þeir Dr. Raimo Vuorinen,  framkvæmdastjóri ELGPN og  Dr. Jim Sampson,  prófessor við Florida State University, framsögu og deildu þar hugmyndum sínum og reynslu um notkun upplýsingatækni í náms– og starfsráðgjöf.

Náms- og starfsráðgjöf getur tekið á sig ýmsar birtingarmyndir og margvíslegar aðferðir í boði sem hægt er að nota til að koma þjónustunni á framfæri og nálgast notendur.  Á námskeiðinu voru Vuorinen og Sampson að setja tækni í samhengi við náms- og starfsráðgjöf og ekki síst hvernig upplýsinga- og samskiptatækni stuðlar að auknu aðgengi að náms- og starfsráðgjöf.  Áhugi félagsmanna á þessu brýna máli var augljós og birtist í líflegum umræðum og óformlegu spjalli í kaffihléi.  Náms- og starfsráðgjafar deildu reynslu sinni hvað upplýsinga- og samskiptatækni varðar og á hvern hátt þeir eru að nýta hana  í starfi.   Umræða um þessi mál er afar mikilvæg í ljósi þess verkefnis sem bíður okkar  í uppbyggingu á upplýsinga- og ráðgjafarkerfis  um nám og störf sem án efa mun stuðla að bættu aðgengi að náms- og starfsráðgjöf.

Daginn eftir var  fundur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem fulltrúar hagsmunaaðila úr skólakerfi og atvinnulífi komu saman ásamt hinum erlendu fræðimönnum til að upplýsa stefnumótendur og aðra hagsmunaaðila í náms- og starfsráðgjöf um möguleika upplýsinga- og samskiptatækni í náms- og starfsráðgjöf.

Nú er það okkar að halda umræðunni gangandi og nýta  þá möguleika sem  upplýsinga- og samskiptatæknin býður upp á.  

Eða eins og einn þátttakandi komst að orði: „Námskeiðið var frábært og gaf mér ofsalega mikið og gott „boost“ bæði vegna þess að ég fékk staðfestingu á því að vera á réttri leið og svo til þess að setja sér ný markmið“. 

Fimmtudagur, 27. september 2012 - 10:00