Er þér hlátur í huga?

Dagur náms- og starfsráðgjafar er nú haldinn í sjöunda sinn og verður af því tilefni blásið til stefnumótunar þar sem starfið okkar og hlutverk verður í brennidepli. Hugmyndin með deginum er að kynna fagið okkar og hlutverk fyrir þjóðinni en þar sem við lifum í síbreytilegum heimi er mikilvægt að endurskoða stöðu okkar reglulega og ræða hana innbyrðis. Oft er vísað í andana fjóra þegar hlutverk okkar er kynnt, þ.e. Hvetjandi, Fræðandi, Styðjandi og Þroskandi og endurspegla þessi nöfn vel hinar mörgu hliðar starfsins. Þetta eru stór og krefjandi hlutverk og ef andarnir eiga að vera vel upplagðir dag hvern, verðum við hvert og eitt að sinna grundvallar endurnæringu okkar á líkama og sál til að halda kröftum og brenna ekki út.

Í venjulegu árferði er álag í starfinu ærið en síðustu fjögur ár hafa verið sérstaklega krefjandi vegna aukinnar neikvæðni, reiði, streitu og mikils vonleysis sem ráðgjafar hafa óneitanlega orðið varir við í sínu starfi. Í þessu andrúmslofti er enn mikilvægara að halda á lofti jákvæðni og hvatningu og vekja athygli á tækifærum og góðum hlutum sem eiga sér stað. Til að halda sjó við þetta álag er mjög mikilvægt að taka sér tíma í að sinna sjálfum sér, taka sér tíma í að vinna áfram vel en ekki láta álag stýra vinnugæðum. Einnig er mikilvægt að losa um áhyggjur og álag með því að hlæja saman, tala saman, hvetja og styðja hvert annað. Hlátur er góð leið til að losa um spennu og mér segir svo hugur að minna hafi verið um hlátur síðustu árin en hollt er og meira verið um áhyggjur, gremju og aðrar neikvæðar tilfinningar. Það er þekkt að hlátur er notaður til að létta á spennu og svartur húmor er ákveðin leið hugans þegar úrræðaleysi eða fáránleiki eru áberandi. Það er gott að fá ærlegt hláturskast í góðra vina hópi og næra sjálfan sig á allan hátt. Í kjölfarið erum við full orku til að takast á við vinnudaginn.

Verum dugleg að nota sjálf þær leiðir sem við kennum öðrum að nota. Hugsum vel um okkur sjálf og gerum okkur far um bjartsýni, jákvæðni, öryggi og ákveðni, réttsýni og sannleika. Þá erum við tilbúin í hin stóru og mikilvægu hlutverk okkar að efla, hvetja, bæta og fræða. Það eru spennandi tímar framundan og næg verkefni þar sem rödd okkar á brýnt erindi.

Til hamingju með daginn.

Hrönn Baldursdóttir 

Föstudagur, 26. október 2012 - 10:15