Frá fræðslunefnd FNS

Föstudaginn 11. mars sl. buðu náms- og starfsráðgjafar hjá Vinnumálastofun í heimsókn. Mætingin var gríðarlega góð og greinilega er eftirspurn innan okkar raða eftir því að við kynnum og kynnumst því fjölbreytta og mikilvæga starfi sem við sinnum vítt og breytt í samfélaginu.

Heimsóknin hófst á því að gestgjafarnir kynntu fyrir okkur deildir og áherslur sem einkenna þeirra starf, þar kom m.a. fram að mikil áhersla er lögð á gerð ferilskrár, markmiðasetningu og áhugahvetjandi viðtöl. Náms- og starfsráðgjafarnir sérhæfa sig einnig  hver á sínu sviði en þannig ná þær að vinna enn betur með markhópinn og efla sjálfa sig í leiðinni. Dæmi um sérhæfingu er HAM, heilsutengd lífsgæði, Seigla, Dass kvíðakvarðinn ofl. Það var mjög gott að fá að kíkja í „verkfærakistuna“ þeirra og sjá að við erum í raun að nota það sama hvar sem við erum en um leið er það frábært að vera minntur á verkfærin sem við höfum ekki notað lengi eða höfum aldrei prófað.  

Farið var á skemmtilega hátt yfir það hversu mismunandi einstaklingar það eru sem eru undir hatti VMST og sýndu þær raundæmi og leiðir hvernig hægt er að vinna með hvern og einn. Einnig var mjög áhugavert að fá kynningu á því að á vef VMST er að finna tölfræði sem sýnir atvinnuleysi frá mörgum sjónarhornum t.d. atvinnugreinum.

https://www.vinnumalastofnun.is/um-okkur/tolfraedi-og-utgefid-efni/maelabord

Heimsóknin var skemmtileg og fræðandi í alla staði. 

Að lokum þakkaði Hrafnhildur Tómasdóttir sviðsstjóri ráðgjafar- og vinnumiðlunarsviðs VMST okkur komuna og bauð upp á veitingar sem voru alls ekki af verri endanum og þar gafst tími til að spjalla og tengjast enn frekar.  

Við hlökkum til að hitta ykkur á næsta viðburði!

Fræðslunefndin

 

 

Miðvikudagur, 6. apríl 2016 - 16:15