Fundur norrænna náms- og starfsráðgjafa

Fundur norrænna náms- og starfsráðgjafa var haldinn í University of Applied Labour Studies í Mannheim þann 4. október síðastliðinn. Á sama tíma var haldin alþjóðleg ráðstefna IAEVG undir yfirheitinu: Social Justice, Prosperity and Sustainable Employment sem við gátum sótt í leiðinni þ.e.a.s.  á tímabilinu 4. – 6. okt. á sama stað.

Við vorum 6 sem mættum á norræna fundinn hjá NFSY: Mats Olof-Ors frá Svíþjóð, Jukka Vuorinen og Maarit Laaksonen frá Finnlandi, Ketill G. Jósefsson frá Íslandi, Ingunn Sandem Bro og Marianne Thorvaldsen frá Noregi.

Engir fulltrúar mættu frá Danmörku að þessu sinni en formaður þeirra Knud Frandzen lést fyrr á árinu.

Fundurinn byrjaði á því að nýr formaður stjórnar kynnti sig en hún heitir Marianne Thorvaldsen frá Noregi. Hvert okkar kynnti sig og fjallaði um það helsta sem er á döfinni eða hefur verið í hverju landi fyrir sig. Ég fjallaði m.a. um menntun okkar og fjölda ráðgjafa starfandi bæði í skólum, símenntunar - miðstöðvum og Vinnumálastofnun. Kynnti þau átaksverkefni sem hafa verið í gangi hjá Vinnumálastofnun síðan árið 2010. Ungt fólk til athafna, þekking og reynsla, nám er vinnandi vegur o.fl.

Minntist einnig á dag náms- og starfsráðgjafar sem hefur verið haldinn árlega í kringum 20. október síðan 2006. Hvað við gerum og hvernig við gerum okkur sýnileg úti í samfélaginu á þessum degi.

Á dagskrá voru landsskýrslur, fjármál, ársfundir/ráðstefnur, samstarf og upplýsingaöflun í fagblöðin sem eru gefin út í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi.

  1. Höfum frest fram til októberloka að skila af okkur landsskýrslu fyrir árið 2011.
  2. Það er gert ráð fyrir 6.500 evrum til starfseminnar en þar sem Knud í Danmörku var í forsvari með fjármálin hefur enn dregist að fá þessa upphæð yfir til Noregs. Það er treyst á að aðildarfélög frá hverju landi greiði sína hluta til starfseminnar þar til þessi fyrrnefnda fjárhæð skilar sér í hús.
  3. Þegar haldnir eru ársfundir hjá hverju félagi í hverju landi fyrir sig var ákveðið að bjóða fulltrúum frá hinum löndunum til fundarins. Viðkomandi þarf ekki að greiða ráðstefnugjald en aftur á móti þarf viðkomandi að greiða ferða- og dvalarkostnað.
  4. 7. – 9 apríl á næsta ári verður haldin ráðstefna náms- og starfsráðgjafa í Noregi. Dagskrá þessarar ráðstefnu byrjar á siglingu með skipi frá Osló til Kaupmannahafnar. Ráðstefnan hefst um borð í Osló og í Kaupmannahöfn sitja þau síðan fyrirlestur um fyrirkomulag náms og starfs ráðgjafa í Danmörku. Halda síðan aftur um borð og sigla til baka.
  5. Upplýsingar frá hverju landi fyrir sig um starfsemi náms- og starfsráðgjafar, fjölda ráðgjafa í félaginu og þá helstu viðburði sem tengjast starfseminni. „Logo“ félagsins verður að fylgja með þessum uppl.

Eftir fundinn dreifðum við okkur á hina ýmsu fyrirlestra sem voru í boði alþjóðlegu samtakanna IAEVG (international association for educational and vocational guidance)

Dagskrá hófst kl. 09:00 og stóð yfir til 18:15 fimmtudag 4. okt. og föstudag 5. okt.  Laugardaginn 6. okt. stóð dagskrá yfir frá kl. 09:00 – 13:15.

Þessi  ráðstefna var ótrúlega stór og glæsileg með fyrirlesara víðs vegar að úr heiminum. Má þar nefna Ronald G. Sultana, Leela Darvall, Mark Watson, Mary McMahon, Nancy Arthur og Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur svo einhverjir séu nefndir.

Ég má til með að nefna þá fyrirlestra sem ég náði að sitja og mikið hefði verið gaman að hafa annan ráðgjafa með sér svona til umræðu um þau mál sem bar á góma og eins til að fá fram mismunandi sjónarmið og viðhorf / skoðanir. Fyrirlestrarnir sem ég sótti voru eftirfarandi:

  1. Developing practitioner competences – experiences from training and research
  2. Developing Lifelong Guidance Systems – policy and practice at national European level
  3. ICT use in Public Employment Services: New tools for e-guidance and Labour Market Intelligence
  4. Preparing young people for school to work transition – influences and policy measures

Að lokum þá er ég afar þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og vona svo sannarlega að okkur náms- og starfsráðgjöfum gefist kostur á að sækja ráðstefnur sem þessa í framtíðinni.

Ég hef á eigin spýtur sótt um námskeið hjá Evrópusambandinu t.d. Cedefop og Academia sem hafa reynst mér vel í minni símenntun og hvet aðra í okkar stétt að kynna sér þá möguleika sem fyrir hendi eru eins og Leonardo, Erasmus og Grundtvig auk hinna fyrrnefndu. Þessum umsóknum fylgja styrkir sem dekka ferðir og uppihald. Mér finnst líka vanta meiri stuðning og hvatningu frá vinnuveitendum okkar í þessa átt. Við erum orðin eitt af húsunum í götunni og þurfum að vera vel vakandi og fylgjast með kollegum okkar á meginlandinu, skiptast á skoðunum og að læra af hvor öðrum. Þetta stækkar sjóndeildarhringinn, eflir fagvitundina og gerir okkur um leið ánægðari í starfi.

 

Með kveðju,

Ketill G. Jósefsson 

Þriðjudagur, 6. nóvember 2012 - 10:15