Hrönn fjallar um ADHD á málþingi

Málþing ADHD samtakanna  „Hvað tekur við? Ungt fólk með ADHD og fræðsluskyldan“   verður haldið föstudaginn 28. september n.k.  Eitt af erindum málþingsins fjallar um námsráðgjöf og  vinnulag vegna ungmenna með sérþarfir í framhaldsskóla.  Við báðum fyrirlesarann Hrönn Baldursdóttur náms- og starfsráðgjafa við Fjölbrautarskólann Ármúla um að svara nokkrum spurningum  af því tilefni.

 

Um hvað munt þú fjalla á málþinginu um þann 28. september?

Ég var beðin um að fjalla um vinnulag okkar náms- og starfsráðgjafa varðandi nemendur með ADHD, þ.e.  hvað við gerum fyrir þá og hvað virkar vel fyrir þá. Sem sagt hvaða þjónusta er til  staðar í framhaldsskólum og hvaða þjónusta þyrfti að vera.    

Hvað er það sem slíkir nemendur þurfa helst aðstoð við?

Þeir þurfa oft aðstoð við að lesa út úr námsáætlunum, aðstoð við að skipuleggja heimanámið og verkefnaskil. Einnig hvatningu til að halda áfram og hjálp við að bæta sjálfsmyndina. Þeir þurfa einnig markvissa náms- og starfsráðgjöf því námsferill þeirra, val á brautum og áföngum er of í óreiðu og ómarkviss.

Leita nemendur með ADHD sérstaklega til náms- og starfsráðgjafa og biðja um aðstoð?

Sumir gera það en allt of margir leita aðstoðar þegar í óefni er komið hjá þeim. Þau eru þá komin langt aftur úr í öllum greinum, mæting léleg og búin að fá ítrekaða viðvörun frá stjórnendum um að bæta ástundun. Sumir hafa sett upplýsingar um greininguna í umsóknina og við sjáum það þá í „Innu“ en annars vitum við bara um greininguna ef nemandi eða foreldrar láta vita.

Hvernig  væri hægt að sinna nemendum með ADHD  í framhaldsskólum betur að þínu mati?

Í mínu starfi höfum við ekki tíma til að veita öllum nemendum með ADHD lágmarksþjónustu sem þurfa. Stöðuhlutfallið þarf því nauðsynlega að leiðrétta þ.e. eitt stöðugildi fyrir hverja 300 nemendur.   

Miðvikudagur, 19. september 2012 - 10:00