Námsbraut í náms- og starfsráðgjöf hlýtur Erasmus styrk

Námsbraut í náms- og starfsráðgjöf, sem  tilheyrir  Félags- og mannvísindadeild, tekur næstu þrjú árin þátt í evrópsku samstarfsverkefni  sem hlotið hefur Erasmus styrk. Meginmarkmið verkefnisins er að koma á formlegu samstarfi milli háskóla í Evrópu sem mennta náms- og starfsráðgjafa og vinna að aukinni fagmennsku, bættri þjónustu og eflingu rannsókna í greininni. Rúmlega 30 háskólar taka þátt í verkefninu sem hlaut í heildina hátt í hálfa milljón evra eða um 75 milljónir króna í styrk. Efling náms- og starfráðgjafar hefur á undanförnum árum verið mikilvægt framfaramál innan menntastefnu ESB, því að í þekkingarsamfélagi nútímans þarf fólk að huga að menntun og starfsfærni ævina alla. Erasmus samstarf um bætta menntun náms- og starfsráðgjafa er einn liður í þessari stefnu.  Námsbraut í náms- og starfsráðgjöf hefur í haust starfað í 20 ár og hefur menntun fagstéttarinnar leikið lykilhlutverk við uppbyggingu náms- og starfsráðgjafar á Íslandi í að tryggja gæði þeirrar ráðgjafar sem stendur til boða í skólakerfinu og á vinnumarkaði. Með tilkomu meistaranámsins og löggildingu starfsheitis náms- og starfsráðgjafa þykir stéttin hérlendis standa nokkuð vel að vígi faglega í samanburði við margar aðrar Evrópuþjóðir. Að auki hefur námsbrautin reglulega boðið uppá fjarnám til að tryggja aðgang allra landsmanna að faglegri náms- og starfráðgjöf. Í Erasmus samstarfinu mun Ísland því taka þátt í að leiða þau verkefni sem snúa að kennsluþróun og notkun upplýsingatækni i menntun náms- og starfsráðgjafa í Evrópu.  Í haust verður í fyrsta sinn hér á landi boðið uppá tveggja ára heildstætt meistaranám í náms- og starfsráðgjöf innan HÍ. Erasmus verkefnið felur í sér víðtækt formlegt samstarf við aðra háskóla þar sem fjallað er um viðmið, innihald og skipulag náms, framsækna kennsluhætti, þróun aðferða í ráðgjöf og rannsóknir. Þátttaka námsbrautarinnar í þessu verkefni er mjög mikilvæg svo efla megi menntun náms- og starfsráðgjafa hérlendis enn frekar. 

 

Fimmtudagur, 26. ágúst 2010 - 19:30