Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf

Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf var formlega opnað þann 29. október s.l. og heimasíða setursins tekin í notkun. Sérfræðisetrið er eitt af rannsóknarstofum Félagsvísindastofnunar á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Stjórn þess skipa Dr. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, formaður, Björg Kristjánsdóttir, formaður Félags náms- og starfsráðgjafa, Jónína Kárdal, deildarstjóri Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, Magnús Árni Magnússon, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar

Evrópusambandið leggur mikla áherslu á eflingu náms- og starfsráðgjafar og í símenntunarstefnu sambandsins skipar náms- og starfsráðgjöf mikilvægan sess.

Vegna þessarar auknu áherslu var samstarfsnet 27 Evrópulanda um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf stofnsett árið 2007, European Lifelong Guidance Policy Network. Ísland tekur þátt í þessu verkefni og leiðir einn vinnuhóp um aðgengi að náms- og starfsráðgjöf ásamt Frökkum. Sérfræðisetrið sér um framkvæmd verkefnisins í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Þátttaka í þessu verkefni gefur einstakt tækifæri til að safna gögnum og upplýsingum um aukið aðgengi og aukinn rétt fólks til náms- og starfsráðgjafar.

Annað verkefni sem er unnið á vegum setursins er þróun mælitækis um aðlögunarhæfni á starfsferli. Þessi rannsókn er í samstarfi við marga erlenda rannsakendur undir stjórn Dr. Mark Savickas.

Verkefnisstjóri setursins er Guðrún Birna Kjartansdóttir, náms- og starfsráðgjafi.

Heimasíða Sérfræðisetursins er www.saens.hi.is.

Mánudagur, 2. nóvember 2009 - 15:30