Skýrslur úr starfi ELGPN

Líkt og margir sjálfsagt vita hefur SÆNS tekið þátt í starfi ELGPN (European lifelong guidance policy network) sem er samstarfsnet fjölda Evrópulanda um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf. Undanfarin þrjú ár hafa SÆNS og Mennta- og menningarmálaráðuneytið leitt vinnupakka ásamt Frakklandi með þemanu Aðgengi að náms- og starfsráðgjöf. Nú er þeirri vinnu að ljúka en þessa dagana eru þær Guðrún Birna Kjartansdóttir (SÆNS) og Erna Árnadóttir (Mennta- og menningarmálaráðuneytið) á ráðstefnu á Kýpur þar sem verið er að fara yfir vinnu síðustu ára og hnýta alla enda í samstarfinu. Verkefni ELGPN undanfarinna ára hafa samanstaðið af fjórum þemum:

  1. Efla hæfni til að stjórna starfsferli sínum.
  2. Auka aðgengi almennings að náms- og starfsráðgjöf.
  3. Gæði náms- og starfsráðgjafar verði tryggð.
  4. Hvatt til samstarfs stefnumótunaraðila milli/innan landa.

Á ráðstefnunni á Kýpur er verið að kynna sex ELGPN skýrslur, tvær stórar skýrslur og fjórar minni. Þær verða aðgengilegar á vefsíðu ELGPN (www.elgpn.eu) að lokinni ráðstefnunni og verða veittar upplýsingar um það á heimasíðu SÆNS (www.saens.hi.is) og Facebook síðu SÆNS. Eins geta áhugasamir haft samband við Ingibjörg Hönnu Björnsdóttur  hjá SÆNS (ihb@hi.is) til að fá frekari upplýsingar og fá sendar skýrslur.

Fyrri stóra skýrslan er ársskýrsla ELGPN 2011-2012 þar sem sagt er frá þeirri vinnu sem fram hefur farið í vinnupökkunum fjórum ásamt öðrum verkefnum á árinu. Eitt helsta verkefni ELGPN á tímabilinu 2011-2012 var að útbúa bjargir og verkfæri (Resource Kit) fyrir stefnumótendur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf. Hin stóra skýrslan fjallar um þessar bjargir og verkfæri og þar er að finna ítarlegar upplýsingar frá ýmsum löndum Evrópu sem hægt er að nýta við stefnumótun. Á þetta við hvort sem verið er að útfæra og innleiða áætlanir eða betrumbæta þær sem fyrir eru á öllum sviðum ævilangrar náms- og starfsráðgjafar. Einnig er að finna þrjár styttri skýrslur er varða (a) stjórnun á starfsferli og innleiðingu á stefnumótun tengdu því (b) sveigjanleika og öryggi á vinnumarkaði, stefnumótun er varðar bæði vinnuveitendur og starfsmenn. Að lokum (c) má nefna skýrslu um atvinnuleysi á meðal ungs fólks, stefnumótun og aðgerðir því tengdu og hvernig ævilöng náms- og starfsráðgjöf getur komið þar inn í.  

Miðvikudagur, 24. október 2012 - 11:15